27.5.2007 | 16:07
Ferðalag Mörtu:
Hér sjáið þið hvar Marta hóf ferðina á Hæð 660. Á mánudagskvöld er áætluð koma til DYE II sem er yfirgefin ratsjárstöð frá kalda stríðinu. Gönguferðin endar í Isortoq þaðan sem siglt (eða þyrluflug) er til Tasilaq. Frá Tasilaq er áætlunarflug til Reykjavíkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.5.2007 | 15:59
Marta skrifar 27.05.07:
Hæ Ísland.
Nú erum við á leið til DYE II og stefnum á að koma þangað á mánudagskvöld ef okkur tekst að ganga 30-35 km í dag og á morgun. Þegar þangað er komið munum við hvíla einn dag og hafa það huggulegt. Þetta eru búnir að vera langir dagar en veðrið gott og okkur er farið að ganga betur með hundaspottin, meira að segja ég er farin að stjórna þeim á sleðanum
Nú erum við búin að snúa sólarhringnum við, of heitt fyrir hundana á daginn, ferlega kalt að tjalda og koma öllu á sinn stað áður en hægt er að hita sér vatn. Í nótt voru drukknir nokkir tappar af koníaki í mínu tjaldi, svefnherbergisfélagi minn núna er Ann-Elin. Hún stefnir á Himalaya eftir þetta ævintýri svo hún er bara að hita upp. Ég get sagt ykkur það að ég hef fallegra útsýni en þið þegar ég sest á klósettið..., en það er helv
kalt á því.
Munið að kaupa kort, elskurnar mínar.
Kær kveðja, Marta.
P.s. Í kvöld er komið að mér að bjóða upp á óvænt góðgæti og luma ég á íslensku nammi ásamt ostum og hangikjöti, auðvitað það besta í heimi. Kv. M.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2007 | 15:55
Fararstjóri skrifar 27.05.07:
Nú er erum við að smella í taktinn. Við lögðum af stað síðdegis á laugardag og fengum alls konar sýnishorn af veðri, allt frá þéttri snjóhríð og hvassviðri til tindrandi sólskins og golu. Ingrid og ég vorum á fremsta sleða, það er áskorun að fylgja réttri stefnu þegar það er þétt þoka. En ef maður styðst við áttavita og vindátt kemst maður vel áfram. Samt má segja að trúlega höfum við litið út eins og við værum rallhálf. Það er nefnilega ekki auðvelt að halda jafnvægi þegar maður sér ekki undirstöðuna sem er að auki síbreytileg. Við gengum fram að miðnætti, skítkalt, giska á minus 35°C en hundunum leið vel í kuldanum.
Ganga dagsins taldi 34 km, nú eigum við 66 km eftir til DYE II (yfirgefin ratsjárstöð frá dögum kalda stríðsins).
Skila kveðju frá öllum, okkur líður mjög vel.
Christian Eide.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2007 | 01:38
26.05.07 - Gengur betur
Það er sko engin elsku mamma í svona leiðöngrum. Hefðbundnir dagar hafa breyst í líkamlegan þrældóm. Það tekur alveg fyrstu 7-10 dagana að venja sig við þessar nýju aðstæður og strit daginn út og inn. Þá er gott að skríða í poka á kvöldin því líkaminn þarf virkilega á hvíld að halda. En hjá vinum okkar eru meira að segja næturnar ekki lengur fastur punktur. Vegna þess hversu þungt færið er og hve hvasst er á morgnana (algengt við sólarupprás) ásamt steikjandi hita yfir hádaginn, þá hafa þau snúið sólarhringnum við. Nú vakna þau síðdegis, leggja af stað snemma kvölds og ganga fram yfir miðnætti. Þá er tjaldað og kvöldverður snæddur um miðja nótt áður en gengið er til náða. Mikilvægasta ástæðan er ekki síst sú að hundarnir draga mikið betur á nóttunni þegar kalt er. Þá er einnig kostur að það er ekki ískalt að fara á fætur síðdegis eins og er snemma morguns og líklegt að hitastigið sé nokkuð hátt í tjaldinu meðan þau sofa. Ekki spillir heldur fyrir að á kvöldin er birtan ævintýraleg og tilhlökkunarefni að ganga með bjarma sólseturs í bakgrunni. Þegar þau svo loks tjalda er auðvitað mjög kalt en birtan töfrandi blá.
Föstudagskvöld og -nótt tókst þeim að komast heila 28 km sem telst mjög góður árangur svona snemma í ferðinni. Ingrid stóð sig eins og hetja með hundana og fær mikið hrós frá félögum sínum. Hún og Herman leiddu hópinn og hinir sleðarnir fylgdu í kjölfarið. Þegar búið var að slá upp búðum á föstudagsnótt fögnuðu þau afmælisdegi Paals, kannski ekki með rjómatertu en örugglega einhverju hjartastyrkjandi. Þessi afmælisdagur á Grænlandsjökli verður án efa með þeim minnisstæðustu í hans lífi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)