31.05.07 - Hálfnuð yfir jökulinn; 38,5 km í gær fimmtudag.

Nú erum við virkilega farin að fá gott rennsli á hundasleðana. Það er bókstaflega eins og við svífum yfir ísinn þegar allt virkar eins og best er á kosið. Ungu mennirnir, Hermann og Kristian, voru eins og kóngar á sínum sleða þar til forystuhundurinn gafst skyndilega upp í lok dagsins. Það endaði með því að út brutust alvöru slagsmál milli hunda og hunda og svo manna og hunda. Drengirnir höfðu að lokum yfirhöndina og tókst að róa ferfætlingana og koma þeim áfram á leiðarenda.

Í dag vöktu tveir fuglar athygli okkar, frekar einmana greyin. Yfirleitt sjást tvær tegundir fugla á jöklinum, önnur er smáfugl, snjótittlingur eða þvíumlíkt, sem fýkur inn á ísinn gegn eigin vilja. Þar þvælast þeir án þess að vita hvar þeir eru og hafa stundum gert sig heimakomna í tjaldbúðum ferðamanna og leitað matar og skjóls. Já, sumir hafa endað inni í tjaldi og hímt á þvottasnúrunum undir tjaldskörinni og skitið á allt sem undir liggur (menn). Þar drepast þeir yfirleitt og enda sem hundamatur. Stundum sjást Kanada-gæsir sem koma oftast í stórum flokkum, mörg hundruð fuglar saman. Oft fljúga þær aðeins fáa metra yfir ísnum og eru tilkomumikil sjón, eins og óveðursský sem brunar yfir sjóndeildarhringinn.

Allir biðja að heilsa og eru vel á sig komnir.

Kveðja, Christian Eide.

 

hundekrangel

 


Fimmtudagskvöld 31.05.07, Marta skrifar:

Halló.

Nú eru 10 dagar liðnir af þessari ferð og ég hef ekki enn fengið heimþrá þó ég sakni auðvitað dóttur minnar mikið sem og annarra ættingja. Ég get allavega ekki kvartað yfir neinum leiða eða uppgjöf; það sem angrar mig mest er vond líkamslykt og skítug föt. Maður fer svo sannarlega langt yfir venjuleg hreinlætismörk í svona ferð.

Hér hef ég öðlast mikla andlega kyrrð, ekkert áreiti eða stress, bara hrein náttúra og endalaust ferskt loft. Búnaðurinn minn hefur verið mjög góður; ég klæðist þremur lögum alla daga og hef ekki fundið fyrir kulda að ráði þannig að 66° norður fær frábæra einkunn frá mér og miklar þakkir fyrir að styrkja mig í þessa ferð. Nú er ég óðum að nálgast mitt markmið sem er mjög þýðingarmikið fyrir mig og minn málstað og langar mig sérstaklega að þakka Deloitte fyrir þeirrra þátttöku og ómetanlegan stuðning sem gerir mér kleift að vera hér. Okkur gengur ótrúlega vel og þjótum áfram þvert yfir jökulinn. En nú er háttatími, kominn tími til að hvíla lúnar fætur og aumt nef.

Kær kveðja, Marta.


Bloggfærslur 1. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband