Ann-Elin skrifar 2. júní: Veðurteppt...

Hvíldardagur í dag. Vindinn lægði ekki þegar leið á daginn svo Christian tók þá ákvörðun að við færum hvergi fyrr en á morgun sunnudag. Enginn mótmælti og hvíldardeginum var tekið fagnandi með svefni, lestri, áti og spilamennsku. En Christian krafðist þess að við myndum samt hreyfa okkur eitthvað og sendi okkur út að byggja snjóhús að hætti Eskimóa. Hér er enginn miskunn! Við hlýddum að sjálfsögðu og byggðum þetta flotta igloo við tjaldbúðirnar og nú rífumst við um það hver fær að sofa í meistaraverkinu í nótt. Við veðjum á gott veður á morgun og langan dag þar sem við þjótum áfram. Gengið er í góðu stuði og klárt í næsta vinnudag.

Kveðja frá Ann-Elin.

 Þæfingur


Laugardagur 2. júní, Marta skrifar:

Halló allir.

Þegar við byrjuðum að ganga á föstudagsmorgun (í gær) þá var mjög hvasst og vindurinn beint á móti okkur. Færið var erfitt. Eftir fjögurra tíma göngu var blessaður Kári orðinn frekar öflugur þannig að ákveðið var að stoppa og setja upp tjald og bíða eftir að veðrið lægði. Sem sagt brjálað rok og þið getið ímyndað ykkur hvernig er að tjalda í slíku. Ég barðist við tjaldið en það gekk ekkert, þurfti aðstoð og eftir mikinn barning og öskur tókst okkur að koma því á sinn stað. Allt rennandi blautt, gott að komast í skjól og prímusinn settur í botn. Eftir smátíma var hægt að koma sér vel fyrir og hafa það notalegt. Ég er með ótrúlega flotta dýnu og öfunda ferðafélagarnir mig mikið af henni. Hún er 9 cm þykk þannig að ég er í góðum málum. Takk kærlega Halldór í Fjallakofanum, fyrir góð ráð og frábæran búnað. Það var skrýtin tilfinning þegar ég var að fara að sofa og hugsaði um landakortið af Grænlandi. Verandi föst í miðri víðáttunni í pínulitlu kúlutjaldi, he, he.

Það var ákveðið að skipta um tjaldfélaga til að fá smá tilbreytingu. Ég svaf eins og ungabarn í rokinu, við Ingrid erum búnar að hafa það gott saman, spjalla, hlæja, borða og lesa. Þegar við vöknuðum svo í morgun (laugardag) var Kári enn iðinn við kolann þannig að við biðum lengur og ætlum að sjá til hvað gerist þegar líður á daginn. Nú er bara að halda áfram með bókina...

Kær kveðja, Marta.

tjöld í roki


Föstudagur 1. júní: Veður versnandi fer...

Við lögðum af stað kl. 9.30 í sterkum mótvindi að austan. Það bætti stöðugt í vindinn og fyrr en varði var skollinn á stormur. Við strituðum áfram en eftir hádegi, eftir 19,2 km, var ákveðið að tjalda. Það gekk heldur brösuglega og tók sinn tíma. Erfiðast var að setja upp Svalbard 6-tjaldið (Helsport). Tveir lágu á tjaldinu á meðan ég þræddi stangirnar í raufarnar með ágætis árangri þar til ein stöngin brotnaði. Mikið bölvað í rokinu meðan leitað var að sterku límbandi til að laga skemmdirnar.

Staðsetning okkar er þessi:

Á flötum nálægt hápunkti jökulsins. Hæð er 2.420 m.y.s. Sem betur fer er ekki sérlega kalt.

Við liggjum nú inni og hlustum á vindinn ýlfra fyrir utan tjaldið sem sveigist til og frá. Í fyrsta sinn í fjórar vikur hef ég tíma til að liggja í leti og lesa, lúxus! Á morgun laugardag, á rokið víst að gefa sig þegar líður á daginn. Ef það gengur ekki eftir þá vonumst við eftir norðlægri vindátt svo við losnum við að hafa vindinn í andlitið.

Í þessari ferð höfum við með okkur eitt Svalbard-tjald og tvö North face V25-tjöld. Þau tvö eru sérstaklega stöðug og rúma tvo menn hvort. Svalbard-tjaldið flaksast dálítið meira en hin tvö en er nauðsynlegt sem hóptjald. Í því bý ég til allar máltíðir fyrir hópinn. Við höfum með okkur mikið af öryggis- og samskiptabúnaði. Jöklabúnað, lyf og ýmis verkfæri til viðgerða höfum við nóg af. Tvöfalt af sumu til að geta mætt fleiri en einni uppákomu. Við erum með neyðarsenda, tvo gervihnattasenda (annar til vara), síma og lófatölvu (PDA) og þrjár talstöðvar. PDA-tækið er frábært og með því sendi ég tölvupóst hvern dag. Ég fæ einnig sendar veðurspár á hverjum degi frá aðstoðarmanni okkar á Grænlandi, honum Hans Chr. Florian. Einnig fæ ég skilaboð frá skrifstofunni gegnum tölvupóst. Talstöðvarnar notum við til að tala saman milli sleðahópa. Með hjálp þeirra og GPS getum við fundið hvort annað ef til aðskilnaðar kemur.

Við getum hlaðið öll þessi tæki með sólarsellu (15,4 Volt, 1,2 A). Hún virkar óaðfinnanlega og vegur lítið sem ekkert. Samanlögð þyngd allra tækjanna með sólarsellunni er ekki nema 1,6 kg! Það er lygilegt að geta haft samband við allan heiminn með 1,6 kg af búnaði og þurfa ekki að hafa áhyggjur af batteríum, aðeins að fá smá sól öðru hvoru fyrir selluna. Fyrir utan þennan öryggisbúnað erum við með GPS. Án þess væri erfitt að komast yfir ísinn og í gegnum skriðöklana. Leiðin sem við förum er nefnilega ekki tilviljanakennd. Fjörtíu ferðir yfir jökulinn hafa tryggt okkur mikla reynslu þegar kemur að því að velja bestu leiðina gegnum sprungusvæði.

En nú þarf ég víst að taka fram pottana og gefa liðinu að borða.

Kveðja, Christian Eide.

Rok


Bloggfærslur 3. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband