04.06.07 - Heimþrá?

Hvílíkur dagur! Við gengum eiginlega allan daginn (mánudag) inni í þéttu snjóskýi. Það var ekki auðvelt að ganga fremst svo það varð töluvert um útúrdúra hjá undirrituðum.
Í lok dagsins var orðið þungt færi fyrir okkur og hundana, mikill blautur snjór. Nú kyngir niður hér fyrir utan tjaldið svo að morgundagurinn gæti orðið strembinn. Ganga dagsins var 37 km.
Það er ýmislegt sem leitar á hugann þegar maður rennur yfir Grænlandsjökul. Í dag flögraði hugurinn á ýmsa misskrautlega staði, t.d: Coke-Cola, hlaupaferðir við Sognsvatn, fjallaferðir, kynlíf, ný ævintýri, vinir, fjölskylda og ég veit ekki hvað manni datt ekki í hug. Ég set mat aftarlega í forgangsröðina, við þurfum að borða mikið á ísnum og ég er orðinn hálfleiður á að troða í mig mat. Því miður!!!

Kveðja, Christian Eide. 


04.06.07 og 05.06.07: Færið þyngist...

Góðan daginn.

Í gær mánudag gengum við 37 km en stefnan var sett á 40 km. Byrjaði ágætlega en endaði með mjög þungu færi þannig að flestir voru orðnir pirraðir og þreyttir í lokin og ekkert gekk. Þá var ákveðið að láta þetta duga þó markmið dagsins hafi ekki náðst. Gott að komast í tjaldið en ein stöngin á mínu tjaldi var sprungin og þurfti að eyða góðum tíma í viðgerðir, brosa, brosa...

Fórum snemma að sofa þar sem við áttum að vakna kl. 05.00 og byrja snemma að ganga en í morgun þriðjudag var mikið rok og ákveðið að leggja sig í tvo tíma aftur. Bara gott en það er enn rok og engin tilhlökkun að skríða úr dúnpokanum. Vonandi komumst við eitthvað áfram í dag (þriðjudag).

Kær kveðja, Marta.


Bloggfærslur 5. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband