9.6.2007 | 14:10
08.06.07 - Húfulaus föstudagur
Annar ótrúlegur dagur (föstudagur) og færið verður betra og betra. 31 km í dag og glaðir hundar. Þegar veðurguðirnir eru okkur hliðhollir þá er ferð yfir Grænlandsjökul unaðsleg.
Glampandi sól, vindur skáhallt í bakið, hundarnir hlupu léttilega áfram. Spurning hverjir dilluðu rófuðum meira af gleði, fjórfætlingarnir eða þeir tvífættu. Þessi dagur verður geymdur með góðu minningunum, meira að segja var hægt að ganga húfu- og vettlingalaus að hluta til í dag. Allir nutu veðurblíðunnar og 31 km var lagður að baki án einnar grettu. Bara ánægja.
Á morgun laugardag eru 35 km eftir að skriðjöklinum og ef færið verður gott seinnipart dags munum við hefja för okkar stuttan spöl niður á við. En nú liggur engum á lengur. Leiðangursmenn eru uppteknir af því að njóta síðustu kílómetranna til hins ítrasta. Þetta verður spennandi, hversu erfiður verður skriðjökullinn? Hversu blautt verður þar? Hvernig mun ganga að koma hundunum niður á hafísinn? Hver sér fyrsta fjallstoppinn sem ekki er þakinn ís?
Kveðja, Christian Eide
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.6.2007 | 13:50
07.06.07 - Laus við Naqqajaq
Þvílíkur dagamunur! Allir kátir á ný, það rættist úr fimmtudeginum sem byrjaði með því að tjald fauk út í veður og vind, yfirferð dagsins var 32 km. Eftir þrjá daga í blindhríð létti loksins til. Snjórinn er þó engu minni og færið verður örugglega í þyngri kantinum næstu kílómetrana, en mestu skiptir að losna við rokið og fá betra skyggni. Síðan má reikna með sköflum þegar nær dregur ströndinni sem geta verið þreytandi yfirferðar, frosið haf eins og slíkt færi er stundum kallað. En nú eru allir með sól í sinni og ánægðir með veðrið. Hópurinn átti gott forskot inni frá fyrri hluta ferðarinnar og er því ekki í neinni tímapressu. Hér er skýrsla fararstjóra frá fimmtudeginum 7. júní:
Frábær dagur! Glampandi sól, svalur vindur í bakið og batnandi færi. Við erum ánægð með þriðja tuginn, það urðu 32 km í dag sem voru ekki gefnir því snjórinn er ennþá djúpur. Við erum smeyk um að það verði of mikið logn á morgun því Grænlandshundum er illa við of mikinn hita. Kristian Gab. stóð sig aftur frábærlega fremst með staðsetningartækið. Hann er í þessari ferð til að æfa sig fyrir Suðurpólinn og er byrjaður að sýna alvöru heimsskautatakta. Að veislu lokinni gaf Herman öllum skærgula stuttermaboli með eigin leiðangursmerki áprentuðu. Þessa boli hefur hann selt til að fjármagna ferðalagið sitt, alveg frábært hjá honum. Við pökkuðum bolunum vel niður svo þær myndu ekki lykta jafnilla og við gerum núorðið.
Nú erum við stödd 66 km frá toppi skriðjökulsins. Ég hlakka mikið til að sýna hópnum austurströndina. Sá sem sér fjöllin fyrstur fær fullt af gosi í verðlaun og langt samtal í gervihnattasímanum. Gaman á morgun, þá er föstudagur og helgin framundan :o)
Kveðja, Christian Eide.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.6.2007 | 13:13
08.06.07 - Marta skrifar:
Morguninn byrjaði ekki vel þar sem feðgarnir (sem ætla á Suðurpólinn) misstu eitt af tjöldunum. Það fauk í burtu þannig að nú höfum við bara tvö tjöld. Við stelpurnar erum því allar saman í litla gula tjaldinu aftur og erum alsælar með það og hjá okkur er allt í röð og reglu... he, he. Frábært veður í dag og við að nálgast lokamarkið, allir orðnir spenntir að komast niður af jöklinum á sunnudaginn. Eigum að byrja kl. 4 á laugardagsmorgun.
Kær kveðja, Marta Grænland.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.6.2007 | 12:59
Viðtal við Mörtu; Í býtið á Bylgjunni:
Fimmtudaginn 7. júní var rætt við Mörtu í þættinum Í býtið á Bylgjunni. Hlustið á Mörtu á Grænlandi, slóðin er þessi:
http://bylgjan.is/?PageID=1857
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)