23.05.07 - Skilaboð frá Dog Camp

        Ingrid, aðstoðarmaður leiðangursins sem sér um hundana, hefur nú beðið ein uppi á jöklinum síðan á laugardagsmorgun. Hún og Christian Eide leiðangursstjóri leiddu annan hóp yfir jökulinn frá austri til vesturs og þar sem hundarnir mega ekki koma niður á vesturströndina fór Christian einn með fyrri hópinn til byggða og tók síðan á móti Mörtu og félögum meðan Ingrid beið á jöklinum. Ingrid skrifar í gærkvöldi að hún hafi fengið þau skilaboð að hópurinn sé væntanlegur í hundabúðirnar að kvöldi miðvikudags. Hún er farin að hlakka til að fá þau til sín því það er víst orðið heldur einmanlegt í fásinninu. Veðrið þessa daga hefur verið ágætt að sunnudeginum undanskildum þegar hvessti það mikið að það hrikti í tjaldinu sem hvarf nánast í blautan snjóskafl. Þegar hún var að fóðra hundana í rokinu vildi ekki betur til en svo að einhver keðja brast og hundarnir ruku saman í slag. Það var ekki auðvelt verk fyrir Ingrid að losa 18 hunda í sundur en það hafðist að lokum. Ingrid segist hafa þurft að laga hundabúðirnar með skóflu eftir lætin og þegar skóflan síðan brotnaði var henni allri lokið. En nú gengur allt prýðilega á ný og hún lætur tímann líða við lestur, svefn og viðgerðir á sleðum og öðrum útbúnaði. Lítill fugl sem hún kallar Fredrik hefur verið á vappi í kringum hana og þegið matarleifar. Gaman að vita hvort hann ákveði að fylgja þeim áfram inn á jökulinn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband