26.5.2007 | 00:36
Kóngar á Grænlandi
Grænlandshundategundin er sú sem er mest skyld úlfum. Þeirra tilvera er ekkert stofulíf heldur miskunnarlaus kuldi og púl. Grænlenskir hundar eru vinnuþjarkar að upplagi. Þeir eru langt frá því að vera gæludýr þó hægt sé að venja þá sem slíka. Á Grænlandi eru þeir fyrst og fremst notaðir til að draga sleða fyrir veiðimenn og einnig fyrir ferðamenn í leiðöngrum. Hundarnir eru geysilega harðgerðir og frumstæðir með einfaldar þarfir sem snúast um mat, vinnu, pörun, slagsmál og hvíld. Þeirra bestu eiginleikar eru kraftar til sleðadráttar. Hver hundur dregur hátt í tvöfalda eigin þyngd yfir lengri vegalengdir. Grænlandshundar eru flokksdýr og þeir fylgja lögmálum stigveldis þar sem aðeins þeir sterku eru samþykktir. Þrátt fyrir það eru þeir vinalegir og ágætir félagar mannsins en ekki sérlega húsbóndahollir. Fái þeir mat munu þeir vinna; dýpri tilfinninga er ekki að vænta. Grænlenskir sleðahundar hafa algjörlega aðlagast heimskautaumhverfinu og að því best er vitað eru þeir eina hundategundin sem getur lifað eingöngu af frosnum mat og í snjó. Þeir éta nánast hvað sem er, selakjöt, allar fisktegundir, hundamat eða matarleifar. Ekki er ráðlegt að gefa þessum hundum mat úr lófa, það er ekki víst að þeir geri greinarmun á hönd eða því sem hún heldur á.
Nýir vinir Mörtu?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.