27.5.2007 | 01:38
26.05.07 - Gengur betur
Það er sko engin elsku mamma í svona leiðöngrum. Hefðbundnir dagar hafa breyst í líkamlegan þrældóm. Það tekur alveg fyrstu 7-10 dagana að venja sig við þessar nýju aðstæður og strit daginn út og inn. Þá er gott að skríða í poka á kvöldin því líkaminn þarf virkilega á hvíld að halda. En hjá vinum okkar eru meira að segja næturnar ekki lengur fastur punktur. Vegna þess hversu þungt færið er og hve hvasst er á morgnana (algengt við sólarupprás) ásamt steikjandi hita yfir hádaginn, þá hafa þau snúið sólarhringnum við. Nú vakna þau síðdegis, leggja af stað snemma kvölds og ganga fram yfir miðnætti. Þá er tjaldað og kvöldverður snæddur um miðja nótt áður en gengið er til náða. Mikilvægasta ástæðan er ekki síst sú að hundarnir draga mikið betur á nóttunni þegar kalt er. Þá er einnig kostur að það er ekki ískalt að fara á fætur síðdegis eins og er snemma morguns og líklegt að hitastigið sé nokkuð hátt í tjaldinu meðan þau sofa. Ekki spillir heldur fyrir að á kvöldin er birtan ævintýraleg og tilhlökkunarefni að ganga með bjarma sólseturs í bakgrunni. Þegar þau svo loks tjalda er auðvitað mjög kalt en birtan töfrandi blá.
Föstudagskvöld og -nótt tókst þeim að komast heila 28 km sem telst mjög góður árangur svona snemma í ferðinni. Ingrid stóð sig eins og hetja með hundana og fær mikið hrós frá félögum sínum. Hún og Herman leiddu hópinn og hinir sleðarnir fylgdu í kjölfarið. Þegar búið var að slá upp búðum á föstudagsnótt fögnuðu þau afmælisdegi Paals, kannski ekki með rjómatertu en örugglega einhverju hjartastyrkjandi. Þessi afmælisdagur á Grænlandsjökli verður án efa með þeim minnisstæðustu í hans lífi.
Athugasemdir
Góðan dag kæru Grænlandsfarar. Þetta hljómar mjög svo spennandi hjá ykkur og gaman að sjá þessar frábæru myndir. Óska ykkur góðrar ferðar.
Kær kveðja frá Kaupmannahöfn,
Ragnhildur
Ragnhildur (IP-tala skráð) 27.5.2007 kl. 11:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.