3.6.2007 | 21:04
Laugardagur 2. júní, Marta skrifar:
Þegar við byrjuðum að ganga á föstudagsmorgun (í gær) þá var mjög hvasst og vindurinn beint á móti okkur. Færið var erfitt. Eftir fjögurra tíma göngu var blessaður Kári orðinn frekar öflugur þannig að ákveðið var að stoppa og setja upp tjald og bíða eftir að veðrið lægði. Sem sagt brjálað rok og þið getið ímyndað ykkur hvernig er að tjalda í slíku. Ég barðist við tjaldið en það gekk ekkert, þurfti aðstoð og eftir mikinn barning og öskur tókst okkur að koma því á sinn stað. Allt rennandi blautt, gott að komast í skjól og prímusinn settur í botn. Eftir smátíma var hægt að koma sér vel fyrir og hafa það notalegt. Ég er með ótrúlega flotta dýnu og öfunda ferðafélagarnir mig mikið af henni. Hún er 9 cm þykk þannig að ég er í góðum málum. Takk kærlega Halldór í Fjallakofanum, fyrir góð ráð og frábæran búnað. Það var skrýtin tilfinning þegar ég var að fara að sofa og hugsaði um landakortið af Grænlandi. Verandi föst í miðri víðáttunni í pínulitlu kúlutjaldi, he, he.
Það var ákveðið að skipta um tjaldfélaga til að fá smá tilbreytingu. Ég svaf eins og ungabarn í rokinu, við Ingrid erum búnar að hafa það gott saman, spjalla, hlæja, borða og lesa. Þegar við vöknuðum svo í morgun (laugardag) var Kári enn iðinn við kolann þannig að við biðum lengur og ætlum að sjá til hvað gerist þegar líður á daginn. Nú er bara að halda áfram með bókina...
Kær kveðja, Marta.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.