11.6.2007 | 14:01
Sunnudagur 10.06.07 - Fararstjóri skrifar:
20. dagur:
Við vöknuðum í frábæru veðri. Undir okkur bylgjaðist jökullinn allt niður að firðinum. Við sáum LAND og ísjaka sem voru eins og risastórir hákarlskjaftar fyrir neðan okkur. Bak við okkur gríðarleg ísbreiðan. Við vorum spennt fyrir verkefni dagsins; munum við lenda í vandræðum þegar kemur að ám og svo hafísnum? Hvernig tekst okkur að ferja hundana og farangurinn yfir þessa tálma?
En okkur gekk ljómandi vel! Leið okkar lá skáhallt niður brattann; við fórum yfir nokkrar ár sem voru vel færar. Að fara yfir árnar var auðvelt fyrir hundana sem eru þjálfaðir í að hoppa milli ísfleka á hafísnum. Gólið var hæst í okkur! Þegar við vorum komin niður úr jöklinum nutum við besta hádegisverðar til þessa í ferðinni. Ekki vegna þess að maturinn væri svona sérstakur heldur var það sigurtilfinningin sem var svo sterk. Skyndilega sáust dökkir dílar á hreyfingu úti á hafísnum. Þarna voru þeir Salo, Hans og Lars á ferðinni, eigendur hundanna sem við höfðum leigt. Með þeirra hjálp skröltum við með sleðana yfir síðustu grjótskriðurnar og skelltum okkur út á hafísinn með látum. Þetta var ólýsanleg ferð yfir þessa síðustu kílómetra. Við brostum allan hringinn og tókum myndir í gríð og erg.
Fimm báta þurfti til að ferja okkur (3 sleðar, 26 hundar, 7 manneskjur og farangur) til þorpsins Isortog. Sólin skein ennþá og fyrir mig og Ingrid var sérlega skemmtilegt að koma aftur þangað. Þetta var staðurinn sem við yfirgáfum í apríl fyrir 40 dögum síðan. Vorið var nú komið og umhverfið öðruvísi nú þegar snjónum hafði létt. Í Isortoq beið okkar kvöldverður hjá Salo og Ellu. Þau buðu okkur upp á kjötpottrétt en fyrst var það gos og bjór sem ég hafði skilið eftir síðast þegar ég var hér. Slituppgefnir sofnuðu leiðangursmenn einn af öðrum þegar leið á kvöldið, allir nema ég og Herman. Hann á kafi í snjóbrettatímariti og ég á kafi í þessum pistli. Í fyrramálið fáum við beikon í morgunmat, síðan um daginn fljúgum við svo með þyrlu til Tassilaq. Þar bíður eitthvað gott að borða fyrir þá sem hafa dreymt um uppáhaldsmatinn sinn síðustu daga.
Kveðja, Christian Eide.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.