5.6.2007 | 16:28
04.06.07 - Heimþrá?
Hvílíkur dagur! Við gengum eiginlega allan daginn (mánudag) inni í þéttu snjóskýi. Það var ekki auðvelt að ganga fremst svo það varð töluvert um útúrdúra hjá undirrituðum.
Í lok dagsins var orðið þungt færi fyrir okkur og hundana, mikill blautur snjór. Nú kyngir niður hér fyrir utan tjaldið svo að morgundagurinn gæti orðið strembinn. Ganga dagsins var 37 km.
Það er ýmislegt sem leitar á hugann þegar maður rennur yfir Grænlandsjökul. Í dag flögraði hugurinn á ýmsa misskrautlega staði, t.d: Coke-Cola, hlaupaferðir við Sognsvatn, fjallaferðir, kynlíf, ný ævintýri, vinir, fjölskylda og ég veit ekki hvað manni datt ekki í hug. Ég set mat aftarlega í forgangsröðina, við þurfum að borða mikið á ísnum og ég er orðinn hálfleiður á að troða í mig mat. Því miður!!!
Kveðja, Christian Eide.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2007 | 16:23
04.06.07 og 05.06.07: Færið þyngist...
Í gær mánudag gengum við 37 km en stefnan var sett á 40 km. Byrjaði ágætlega en endaði með mjög þungu færi þannig að flestir voru orðnir pirraðir og þreyttir í lokin og ekkert gekk. Þá var ákveðið að láta þetta duga þó markmið dagsins hafi ekki náðst. Gott að komast í tjaldið en ein stöngin á mínu tjaldi var sprungin og þurfti að eyða góðum tíma í viðgerðir, brosa, brosa...
Fórum snemma að sofa þar sem við áttum að vakna kl. 05.00 og byrja snemma að ganga en í morgun þriðjudag var mikið rok og ákveðið að leggja sig í tvo tíma aftur. Bara gott en það er enn rok og engin tilhlökkun að skríða úr dúnpokanum. Vonandi komumst við eitthvað áfram í dag (þriðjudag).
Kær kveðja, Marta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2007 | 09:40
Sunnudagur, skýrsla fararstjóra:
Tími: 10 klst. með pásum.
Veður: Sól, -5° C, næstum alveg logn.
Færi: Hart, þunn lausamjöll.
Dagurinn flaug áfram; hundarnir stóðu sig frábærlega. Við hlökkum mikið til morgundagsins ef skilyrðin haldast svona. Við erum núna 40 km fyrir austan hæsta punkt. Það er skýjað núna í kvöld. Hrotur í tjöldunum eftir pastakvöldverð og nýbakaða köku. Ný vika (mánudagur) byrjar kl. 06.00.
Kveðja, Christian.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2007 | 09:37
Sunnudagur 3. júní - Nýtt met!
Við vöknuðum í sól og blíðu sunnudagsmorgun þannig að það var þess virði að bíða. Þutum svo áfram og slógum mörg met, gengum 50 km og allir glaðir. Það var ótrúlegt að vera á jöklinum í svona veðri og í raun erfitt fyrir mig að lýsa því. Upplifun sem mun aldrei gleymast. Nú er nefið rautt og aumt og engin krem virka eða duga á trúðanebbann. Fjölbreytni í matarboxinu er orðin frekar lítil, endalaust hrökkbrauð og kavíar. Allir að kafna úr svitafýlu eftir daginn.
Hafið það gott og ekki gleyma að kaupa kortin!!!
Kær kveðja, Marta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.6.2007 | 21:12
Ann-Elin skrifar 2. júní: Veðurteppt...
Kveðja frá Ann-Elin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2007 | 21:04
Laugardagur 2. júní, Marta skrifar:
Þegar við byrjuðum að ganga á föstudagsmorgun (í gær) þá var mjög hvasst og vindurinn beint á móti okkur. Færið var erfitt. Eftir fjögurra tíma göngu var blessaður Kári orðinn frekar öflugur þannig að ákveðið var að stoppa og setja upp tjald og bíða eftir að veðrið lægði. Sem sagt brjálað rok og þið getið ímyndað ykkur hvernig er að tjalda í slíku. Ég barðist við tjaldið en það gekk ekkert, þurfti aðstoð og eftir mikinn barning og öskur tókst okkur að koma því á sinn stað. Allt rennandi blautt, gott að komast í skjól og prímusinn settur í botn. Eftir smátíma var hægt að koma sér vel fyrir og hafa það notalegt. Ég er með ótrúlega flotta dýnu og öfunda ferðafélagarnir mig mikið af henni. Hún er 9 cm þykk þannig að ég er í góðum málum. Takk kærlega Halldór í Fjallakofanum, fyrir góð ráð og frábæran búnað. Það var skrýtin tilfinning þegar ég var að fara að sofa og hugsaði um landakortið af Grænlandi. Verandi föst í miðri víðáttunni í pínulitlu kúlutjaldi, he, he.
Það var ákveðið að skipta um tjaldfélaga til að fá smá tilbreytingu. Ég svaf eins og ungabarn í rokinu, við Ingrid erum búnar að hafa það gott saman, spjalla, hlæja, borða og lesa. Þegar við vöknuðum svo í morgun (laugardag) var Kári enn iðinn við kolann þannig að við biðum lengur og ætlum að sjá til hvað gerist þegar líður á daginn. Nú er bara að halda áfram með bókina...
Kær kveðja, Marta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2007 | 20:50
Föstudagur 1. júní: Veður versnandi fer...
Við lögðum af stað kl. 9.30 í sterkum mótvindi að austan. Það bætti stöðugt í vindinn og fyrr en varði var skollinn á stormur. Við strituðum áfram en eftir hádegi, eftir 19,2 km, var ákveðið að tjalda. Það gekk heldur brösuglega og tók sinn tíma. Erfiðast var að setja upp Svalbard 6-tjaldið (Helsport). Tveir lágu á tjaldinu á meðan ég þræddi stangirnar í raufarnar með ágætis árangri þar til ein stöngin brotnaði. Mikið bölvað í rokinu meðan leitað var að sterku límbandi til að laga skemmdirnar.
Staðsetning okkar er þessi:
Á flötum nálægt hápunkti jökulsins. Hæð er 2.420 m.y.s. Sem betur fer er ekki sérlega kalt.
Við liggjum nú inni og hlustum á vindinn ýlfra fyrir utan tjaldið sem sveigist til og frá. Í fyrsta sinn í fjórar vikur hef ég tíma til að liggja í leti og lesa, lúxus! Á morgun laugardag, á rokið víst að gefa sig þegar líður á daginn. Ef það gengur ekki eftir þá vonumst við eftir norðlægri vindátt svo við losnum við að hafa vindinn í andlitið.
Í þessari ferð höfum við með okkur eitt Svalbard-tjald og tvö North face V25-tjöld. Þau tvö eru sérstaklega stöðug og rúma tvo menn hvort. Svalbard-tjaldið flaksast dálítið meira en hin tvö en er nauðsynlegt sem hóptjald. Í því bý ég til allar máltíðir fyrir hópinn. Við höfum með okkur mikið af öryggis- og samskiptabúnaði. Jöklabúnað, lyf og ýmis verkfæri til viðgerða höfum við nóg af. Tvöfalt af sumu til að geta mætt fleiri en einni uppákomu. Við erum með neyðarsenda, tvo gervihnattasenda (annar til vara), síma og lófatölvu (PDA) og þrjár talstöðvar. PDA-tækið er frábært og með því sendi ég tölvupóst hvern dag. Ég fæ einnig sendar veðurspár á hverjum degi frá aðstoðarmanni okkar á Grænlandi, honum Hans Chr. Florian. Einnig fæ ég skilaboð frá skrifstofunni gegnum tölvupóst. Talstöðvarnar notum við til að tala saman milli sleðahópa. Með hjálp þeirra og GPS getum við fundið hvort annað ef til aðskilnaðar kemur.
Við getum hlaðið öll þessi tæki með sólarsellu (15,4 Volt, 1,2 A). Hún virkar óaðfinnanlega og vegur lítið sem ekkert. Samanlögð þyngd allra tækjanna með sólarsellunni er ekki nema 1,6 kg! Það er lygilegt að geta haft samband við allan heiminn með 1,6 kg af búnaði og þurfa ekki að hafa áhyggjur af batteríum, aðeins að fá smá sól öðru hvoru fyrir selluna. Fyrir utan þennan öryggisbúnað erum við með GPS. Án þess væri erfitt að komast yfir ísinn og í gegnum skriðöklana. Leiðin sem við förum er nefnilega ekki tilviljanakennd. Fjörtíu ferðir yfir jökulinn hafa tryggt okkur mikla reynslu þegar kemur að því að velja bestu leiðina gegnum sprungusvæði.
En nú þarf ég víst að taka fram pottana og gefa liðinu að borða.
Kveðja, Christian Eide.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2007 | 14:41
31.05.07 - Hálfnuð yfir jökulinn; 38,5 km í gær fimmtudag.
Í dag vöktu tveir fuglar athygli okkar, frekar einmana greyin. Yfirleitt sjást tvær tegundir fugla á jöklinum, önnur er smáfugl, snjótittlingur eða þvíumlíkt, sem fýkur inn á ísinn gegn eigin vilja. Þar þvælast þeir án þess að vita hvar þeir eru og hafa stundum gert sig heimakomna í tjaldbúðum ferðamanna og leitað matar og skjóls. Já, sumir hafa endað inni í tjaldi og hímt á þvottasnúrunum undir tjaldskörinni og skitið á allt sem undir liggur (menn). Þar drepast þeir yfirleitt og enda sem hundamatur. Stundum sjást Kanada-gæsir sem koma oftast í stórum flokkum, mörg hundruð fuglar saman. Oft fljúga þær aðeins fáa metra yfir ísnum og eru tilkomumikil sjón, eins og óveðursský sem brunar yfir sjóndeildarhringinn.
Allir biðja að heilsa og eru vel á sig komnir.
Kveðja, Christian Eide.
Bloggar | Breytt 3.6.2007 kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.6.2007 | 14:35
Fimmtudagskvöld 31.05.07, Marta skrifar:
Nú eru 10 dagar liðnir af þessari ferð og ég hef ekki enn fengið heimþrá þó ég sakni auðvitað dóttur minnar mikið sem og annarra ættingja. Ég get allavega ekki kvartað yfir neinum leiða eða uppgjöf; það sem angrar mig mest er vond líkamslykt og skítug föt. Maður fer svo sannarlega langt yfir venjuleg hreinlætismörk í svona ferð.
Hér hef ég öðlast mikla andlega kyrrð, ekkert áreiti eða stress, bara hrein náttúra og endalaust ferskt loft. Búnaðurinn minn hefur verið mjög góður; ég klæðist þremur lögum alla daga og hef ekki fundið fyrir kulda að ráði þannig að 66° norður fær frábæra einkunn frá mér og miklar þakkir fyrir að styrkja mig í þessa ferð. Nú er ég óðum að nálgast mitt markmið sem er mjög þýðingarmikið fyrir mig og minn málstað og langar mig sérstaklega að þakka Deloitte fyrir þeirrra þátttöku og ómetanlegan stuðning sem gerir mér kleift að vera hér. Okkur gengur ótrúlega vel og þjótum áfram þvert yfir jökulinn. En nú er háttatími, kominn tími til að hvíla lúnar fætur og aumt nef.
Kær kveðja, Marta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.5.2007 | 12:13
Skýrsla fararstjóra frá 30.05.07:
Þetta var löng dagleið en það var svo gaman að við gátum ekki stillt okkur. Með þessu áframhaldi verðum við fljót yfir á austurströndina. Nú eru u.þ.b. 300 km á efsta hluta skriðjökulsins. Þrátt fyrir það ætlum við að róa okkur aðeins niður á næstunni. Ég vil vera á fremsta sleða upp á hæsta punktinn því stundum mætir manni hávaðarok beint í andlitið þar uppi.
Hlökkum til framhaldsins.
Kveðja, Christian Eide.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)