30.05.07 - Kvöldskrif Mörtu:

Hæ öll, búið að vera frábært veður í dag miðvikudag og gengið vel, tæpir 43 km að baki. Ég var í hlátursstuði í allan dag og naut þess að þjóta áfram á hvíta risanum. Nú erum við búin að tjalda og erum að fara að snæða matarskammtinn og síðan ætlum við stelpurnar að eiga stund saman í kvöld..., það verður stuð hjá okkur.

 

Ég gleymdi að segja ykkur frá flotta kamrinum á DYE II, glæsilegur kofi með tímaritum, wc-pappír og m.a.s. sótthreinsivökva; mjög góð tilbreyting fyrir bossann frá Kára gamla og kuldanum.

Það eru feðgar hérna sem eru að undirbúa sig fyrir ferð á Suðurpólinn en þeim gamla hefur ekki gengið nógu vel og nú held ég að þeir séu báðir að guggna enda enginn dans á rósum. Ég er í góðum gír og nú er bara að halda áfram með smjörið. Hér eru engir fuglar og ekkert að sjá nema himinn og hvítur jökull svo langt sem augað eygir. Vona að þið séuð dugleg að kaupa kortin, elskurnar mínar.

Kær kveðja, Marta.

 

hundasleðar


30.05.07 - Marta skrifar:

Halló heimur.

     Dagurinn í dag (þriðjudagur) var rólegur, búin að liggja eins og klessa inni í tjaldi og lesa, hef ekki gert handtak og látið Norðmennina um skítverkin. Við fórum reyndar að skoða DYE II og það var mjög skrýtin tilfinning að ganga um þetta ferlíki og pínu sorglegt að sjá hversu illa er farið með verðmæti sem hægt væri að nýta betur í heiminum. Í eldhúsinu fann ég íslenskt beikon og smjör. Á morgun miðvikudag er stefnan sett á hátind jökulsins, þangað eru áætlaðir þrír dagar og ég verð tilbúin í slaginn eftir góða hvíld í dag.

Bið að heilsa ykkur öllum.

 

Kær kveðja, Marta.


30.05.07 - Fararstjóri skrifar:

      Hvíldardagur hópsins við DYE II. Sváfum lengi, fengum nýbakað brauð í morgunmat og fórum svo að skoða ferlíkið. Hundarnir fengu líka morgunmatinn sinn, það þarf líka að dekra við þá greyin. Ég er ánægður með hvað þeir hafa haldist vel í holdum í ferðinni og virðast mjög vel á sig komnir. Þó að það væri hvíldardagur hjá leiðangursmönnum var nóg að gera hjá mér og Ingrid. Við þurftum að gera við sleðabúnaðinn, yfirfara alla taumana og áætla matarskammtana. DYE II var markmið okkar fyrsta hluta ferðarinnar, nú bíður flott ferð áfram austur eftir. Ég og Ingrid erum sérstaklega spennt að mæta vorinu á austurströndinni, spurning hversu miklar leysingar munu bíða okkar í skriðjöklinum og hvort það er einhver hafís eftir í firðinum ennþá.

Að morgni miðvikudags verður ræst kl. 6.30 og lagt af stað um kl. 9. Við ætlum að byrja aftur á venjulegu róli því það er ekki lengur jafn heitt og var í upphafi ferðar. Við stefnum á að ganga 8-9 tíma hvern dag á leið til austurstrandarinnar. Miðvikudag ætla Hermann og Kristian Gabrielsen að keyra eigin hundasleða og þeir hlakka mikið til.

 

Kveðja, Christian Eide.


29.05.07 Marta skrifar:

      Jæja, loksins komin á flotta svæðið hjá kananum, alltaf jafn ýktir blessaðir... Þetta gekk vel hjá okkur í dag, við flugum áfram á sleðanum og það var bara gaman. Nú verður slakað á allan þriðjudaginn og reynt að undirbúa sig fyrir langa göngu. Hér er mikið talað á norsku í kringum mig og ég er farin að söngla í huganum. Það sem mér finnst erfiðast eru síðustu metrarnir á göngunum og þá verð ég alltaf að reyna að hugsa eitthvað skemmtilegt til að komast áfram. Við erum búin að vera heppin með veðrið en það hefur samt verið kalt. Nú sit ég í hústjaldi kanans og borða nýbakað brauð og þennan blessaða ferðamat. Líður vel og finnst ennþá ótrúlegt að ég sé á þessum hvíta risa.

Kær kveðja, Marta.

 Hér æfa herþotur lendingar í snjó:

campdye


29.05.07- DYE II

      Áttundi dagur, annar í hvítasunnu: 32 km á aðeins 5 klst! Það er ekki lítill hraði á hópnum, greinilegt er að samvinna manna og hunda gengur vel þessa stundina eða kannski var það harðfiskurinn frá Mörtu sem gaf svona gott bensín?

 

Ferðabréf frá fararstjóra:

     Frábær dagur. Sunnudagurinn einkenndist af mótvindi og þegar við vöknuðum mánudagsmorgun leit allt út fyrir svipaðar aðstæður. En svo kom í ljós að við myndum hafa vindinn í bakið og kílómetrarnir hlóðust upp í átt að DYE II. Hundarnir unnu sitt verk og við brostum allan hringinn. Þegar ca. 20 km voru til ratsjárstöðvarinnar sáum við glitta í hana í fjarska. Ingrid sá hana fyrst og vann þar með bjór á okkar kostnað í Tasilaq. Á síðustu metrunum voru teknar margar pásur til að mynda ferlíkið. Vegalengd dagsins var 32 km á 5 tímum, besti árangur var 7 km á 1 klst. með mig másandi fremst. Hundarnir eru til friðs núna, hættir á lóðaríi og einbeita sér meira að því að vinna en fjölga sér. Þegar ég og Ingrid vorum á leið vestur með hinn hópinn þá var mikið tilstand á hundunum, við þurftum ítrekað að stoppa meðan hundarnir pöruðu sig. Sumir góluðu, aðrir brostu...  Á áfangastað fóðruðum við hundana og komum þeim fyrir; Ann-Elin bakaði brauð, mmm... nýbakað brauð með smjöri er dásamlegt. Í DYE II hittum við fjóra göngugarpa sem Ingrid þekkir og eru á leið vestur, öfugt við okkur. Ótrúleg tilviljun að hitta einmitt á þá hér. Á morgun þriðjudag ætlum við að hvíla okkur, skoða stöðina, yfirfara græjurnar og matarbirgðir. Með hunda í stuði og fínt færi hlökkum við til áframhaldandi ferðar.

Kveðja, Christian Eide.

 

DYE II

dye


Fararstjóri skrifar 28.05.07:

      Þá er sólin horfin; sunnudagurinn einkenndist af roki og slæmu skyggni. Gengum í níu tíma, 34,8 km og eigum nú 32 km eftir til DYE II. Okkur gekk mjög vel, góður hraði og fá stopp. Hópurinn vann verk sitt óaðfinnanlega. Sleðaliðin eru þessi: Pål og Kristian, Ann-Elin og Herman, Ingrid og Marta. Undirritaður hefur gengið fyrstur, troðið spor og haldið áttum.

     Í tjaldbúðum var svo haldin átveisla mikil. Ég eldaði pylsupottrétt úr dönskum pylsum með spaghetti og pastasósu og í forrétt átum við kartöfluflögur. Eftirrétturinn var nýbökuð kaka. Að þessari máltíð lokinni dró Marta fram ýmislegt óvænt. Nokkrar litlar flöskur af íslensku brennivíni, súkkulaði og fleira góðgæti. Harðfiskur með smjöri sló í gegn, frábær samsetning!

Kveðja, Christian Eide.


Ferðalag Mörtu:

Kort

Hér sjáið þið hvar Marta hóf ferðina á Hæð 660. Á mánudagskvöld er áætluð koma til DYE II sem er yfirgefin ratsjárstöð frá kalda stríðinu. Gönguferðin endar í Isortoq þaðan sem siglt (eða þyrluflug) er til Tasilaq. Frá Tasilaq er áætlunarflug til Reykjavíkur.


Marta skrifar 27.05.07:

Hæ Ísland.

     Nú erum við á leið til DYE II og stefnum á að koma þangað á mánudagskvöld ef okkur tekst að ganga 30-35 km í dag og á morgun. Þegar þangað er komið munum við hvíla einn dag og hafa það huggulegt. Þetta eru búnir að vera langir dagar en veðrið gott og okkur er farið að ganga betur með hundaspottin, meira að segja ég er farin að stjórna þeim á sleðanum…
     Nú erum við búin að snúa sólarhringnum við, of heitt fyrir hundana á daginn, ferlega kalt að tjalda og koma öllu á sinn stað áður en hægt er að hita sér vatn. Í nótt voru drukknir nokkir tappar af koníaki í mínu tjaldi, svefnherbergisfélagi minn núna er Ann-Elin. Hún stefnir á Himalaya eftir þetta ævintýri svo hún er bara að hita upp. Ég get sagt ykkur það að ég hef fallegra útsýni en þið þegar ég sest á klósettið..., en það er helv… kalt á því.

Munið að kaupa kort, elskurnar mínar.
Kær kveðja, Marta.

P.s. Í kvöld er komið að mér að bjóða upp á óvænt góðgæti og luma ég á íslensku nammi ásamt ostum og hangikjöti, auðvitað það besta í heimi. Kv. M.

 


Fararstjóri skrifar 27.05.07:

     Nú er erum við að smella í taktinn. Við lögðum af stað síðdegis á laugardag og fengum alls konar sýnishorn af veðri, allt frá þéttri snjóhríð og hvassviðri til tindrandi sólskins og golu. Ingrid og ég vorum á fremsta sleða, það er áskorun að fylgja réttri stefnu þegar það er þétt þoka. En ef maður styðst við áttavita og vindátt kemst maður vel áfram. Samt má segja að trúlega höfum við litið út eins og við værum rallhálf. Það er nefnilega ekki auðvelt að halda jafnvægi þegar maður sér ekki undirstöðuna sem er að auki síbreytileg. Við gengum fram að miðnætti, skítkalt, giska á minus 35°C en hundunum leið vel í kuldanum.
Ganga dagsins taldi 34 km, nú eigum við 66 km eftir til DYE II (yfirgefin ratsjárstöð frá dögum kalda stríðsins).
Skila kveðju frá öllum, okkur líður mjög vel.

Christian Eide.


26.05.07 - Gengur betur

      Það er sko engin elsku mamma í svona leiðöngrum. Hefðbundnir dagar hafa breyst í líkamlegan þrældóm. Það tekur alveg fyrstu 7-10 dagana að venja sig við þessar nýju aðstæður og strit daginn út og inn. Þá er gott að skríða í poka á kvöldin því líkaminn þarf virkilega á hvíld að halda. En hjá vinum okkar eru meira að segja næturnar ekki lengur fastur punktur. Vegna þess hversu þungt færið er og hve hvasst er á morgnana (algengt við sólarupprás) ásamt steikjandi hita yfir hádaginn, þá hafa þau snúið sólarhringnum við. Nú vakna þau síðdegis, leggja af stað snemma kvölds og ganga fram yfir miðnætti. Þá er tjaldað og kvöldverður snæddur um miðja nótt áður en gengið er til náða. Mikilvægasta ástæðan er ekki síst sú að hundarnir draga mikið betur á nóttunni þegar kalt er. Þá er einnig kostur að það er ekki ískalt að fara á fætur síðdegis eins og er snemma morguns og líklegt að hitastigið sé nokkuð hátt í tjaldinu meðan þau sofa. Ekki spillir heldur fyrir að á kvöldin er birtan ævintýraleg og tilhlökkunarefni að ganga með bjarma sólseturs í bakgrunni. Þegar þau svo loks tjalda er auðvitað mjög kalt en birtan töfrandi blá.

Föstudagskvöld og -nótt tókst þeim að komast heila 28 km sem telst mjög góður árangur svona snemma í ferðinni. Ingrid stóð sig eins og hetja með hundana og fær mikið hrós frá félögum sínum. Hún og Herman leiddu hópinn og hinir sleðarnir fylgdu í kjölfarið. Þegar búið var að slá upp búðum á föstudagsnótt fögnuðu þau afmælisdegi Paals, kannski ekki með rjómatertu en örugglega einhverju hjartastyrkjandi. Þessi afmælisdagur á Grænlandsjökli verður án efa með þeim minnisstæðustu í hans lífi.

c_documents_and_settings_administrator_my_documents_my_pictures_marta_g_hundsrassar_217062.jpg

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband